Keppir þar sem næsthæst fé fæst

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur þegið boð um að keppa á þriðja risamóti sínu í golfi á þessu keppnistímabili en það er Evian-meistaramótið sem fer fram í Frakklandi 14.-17. september. Ólafía varð fyrst íslenskra kylfinga til að leika á risamóti þegar hún tók þátt í PGA-meistaramótinu í lok júní og hún komst einnig inn á Opna breska í Skotlandi í ágúst.

Evian-meistaramótið er fimmta og síðasta risamót ársins. Segja má að mótið sé næststærsta mót hvers árs, en það er hluti af bæði LPGA-mótaröðinni og Evrópumótaröðinni, og er verðlaunaféð það næsthæsta á eftir Opna bandaríska mótinu. Heildarverðlaunafé er 3.650.000 Bandaríkjadalir og fær sigurvegarinn 547.500 dali, jafnvirði tæplega 60 milljóna króna.

Áður en Ólafía heldur til Frakklands keppir hún á LPGA-móti í Indianapolis sem hefst í dag. Ólafía er í 26. ráshópi og hefur hún leik um kl. 16.30, á 10. teig.