Ólafía kom í hús í fjórða sæti

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék svo til óaðfinnanlega á öðrum hring á Indy Women-mótinu á LPGA-mótaröðinni í Indianapolis í dag. Hún kom í hús á níu höggum undir pari samtals í fjórða sæti og er í bullandi toppbaráttu fyrir lokahringinn.

Ólafía spilaði fyrsta hringinn í gær á fimm höggum undir pari og var í 9. sæti eftir hann. Fyrst var talið að Ólafía hefði byrjað fyrsta hringinn í dag á skolla, en eftir hringinn var kortið hennar leiðrétt í par á fyrstu holu. Hún fékk því par á fyrstu sex holunum en um miðjan hring setti hún í flughringinn.

Hún fékk þá fjóra fugla á fimm holum og bætti einum við til viðbótar áður en hringurinn var úti. Hún fékk hins vegar skolla á 18. holunni, sinn eina í dag, og spilaði því á fjórum höggum undir pari. Hún er samtals á níu höggum undir pari og kom í hús í 4.-6. sæti.

Ólafía átti fyrsta rástíma í dag og því eru svo til allir kylfingar eftir að ljúka leik og endanlega staða hennar fyrir þriðja og síðasta hring á morgun á því eftir að koma í ljós. Hún er hins vegar löngu flogin í gegnum niðurskurðinn og þegar þetta er skrifað er hún aðeins þremur höggum frá öðru sætinu.

Fylgst var með gangi mála á hringnum hjá Ólafíu í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Ólafía í Indianapolis - 2. hringur opna loka
kl. 16:35 Textalýsing <b>18. SKOLLI -</b> Eftir fullkominn hring þá lýkur Ólafía leik í dag á skolla. Hún lék hringinn þó frábærlega á fjórum höggum undir pari og kemur í hús í fjórða sæti. Lokastaðan fyrir þriðja hring er þó hvergi nærri ljós. <b>Staðan: 4.-6. sæti á 9 höggum undir pari.
mbl.is