Ólafía í þriðja sæti eftir ótrúlega lokaholu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir mbl.is/Árni Sæberg

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði sínum besta árangri á LPGA-mótaröðinni á tímabilinu, en á lokahringnum á Indy Women-mótinu í Indianapolis í dag kom hún í hús í 3. sæti á 13 höggum undir pari eftir að hafa fengið örn á lokaholunni.

Fyrir lokahringinn í dag var Ólafía jöfn fleiri kylfingum í 7. sæti á 9 höggum undir pari. Hún lék stöðugt golf á fyrri níu holunum í dag, en hún fékk fugl á 3. holu en skolla á þeirri 8. og var því á pari á hringnum fyrir síðari níu holurnar.

Þar fékk hún tvo fugla á fjórum holum á miðjum síðari hluta hringsins og var þá komin á -11 högg. Hún kláraði hringinn með flugeldasýningu, fékk örn á 18. holu og kom í hús á fjórum höggum undir pari á hringnum og 13 höggum undir pari samtals. Hún kom í hús í 3. sæti

Ekki eru allir kylfingar búnir að ljúka leik og því gæti lokastaða hennar breyst, en það er þegar ljóst að þetta er hennar besti árangur á þessari sterkustu mótaröð heims. Ólafía hefur best náð 13. sætinu á tímabilinu.

Þessi úrslit hjá Ólafíu þýða það einnig að hún mun taka stökk á peningalistanum. Fyrir mótið var hún í 101. sæti, en efstu 100 kylfingarnir í lok tímabilsins fá fullan þátttökurétt á því næsta. Miðað við núverandi stöðu er búist við að hún verði í 73. sæti eftir mótið.

Lexi Thompson er efst á 19 höggum undir pari.

Fylgst var með gangi mála hjá Ólafíu allan hringinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Ólafía í Indianapolis - 3. hringur opna loka
kl. 19:12 Textalýsing 18. ÖRN - HALLÓ! Það er ekki hægt að enda hringinn betur, Ólafía spilar þessa par 4 braut á tveimur höggum og fær örn! Það kemur henni 13 höggum undir parið og hún kemur í hús í 3. sæti! Staðan: -13.
mbl.is