Framtíðin er tryggð og björt

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af því hvernig næsta keppnistímabil kemur til með að líta út.

Eftir magnaðan árangur á LPGA-móti í Indianapolis um helgina, þann besta hjá íslenskum kylfingi, flaug Ólafía upp peningalistann mikilvæga á mótaröðinni og ætti að geta gengið að því sem vísu að fá fullan keppnisrétt á mótaröðinni aftur á næsta ári.

Ólafía hafnaði í 4. sæti á mótinu um helgina, á samtals 13 höggum undir pari. Hún náði sér með sérlega glæsilegum hætti í örn á lokaholunni, á þriðja og síðasta keppnisdeginum, sem skilaði henni sex sætum ofar en ella. Aðeins bandaríska golfstjarnan Lexi Thompson (-19), hin nýsjálenska Lydia Ko (-15) og hin ástralska Minjee Lee (-14) enduðu ofar.

Fjórða sætið gaf Ólafíu 102.909 Bandaríkjadali í verðlaun, eða um 10,9 milljónir króna. Segja má að örninn á lokaholunni hafi fært henni 6,6 milljónir aukalega, því fyrir 10. sæti fengust 4,3 milljónir.

Þetta verðlaunafé er ekki aðeins ágæt búbót fyrir Ólafíu heldur kemur það henni upp LPGA-listann, þar sem kylfingum er einfaldlega raðað eftir því hve miklu verðlaunafé þeir safna yfir tímabilið. Efstu 100 fá svokallaðan „fullan keppnisrétt“ á næsta tímabili, rétt eins og Ólafía hefur nú eftir að hafa þrætt nálaraugað á úrtökumótinu síðasta vetur. Ólafía komst um helgina úr 101. sæti í 67. sæti peningalistans, og hefur samtals safnað 174.999 Bandaríkjadölum. Kylfingurinn í 100. sæti er með 91.223 dali, nú þegar níu mót af 34 sem gefa verðlaunafé eru eftir á þessu keppnistímabili.

Nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Bloggað um fréttina