Ólafía vann sér inn 23 milljónir á tímabilinu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir spilaði um helgina á lokamóti LPGA-mótaraðarinnar þetta tímabilið þar sem hún hafnaði í 59. sæti.

Fyrir það fékk Ólafía 6 þúsund dollara, rúmlega 600 þúsund krónur. Hún tók þátt í 26 mótum á sínu fyrsta tímabili á LPGA og vann sér samtals inn tæplega 220 þúsund dollara. Það jafngildir tæplega 23 milljónum íslenskra króna og varð hún í 74. sæti af öllum keppendum mótaraðarinnar hvað verðlaunafé varðar í ár.

Hæsta upphæðin sem Ólafía fékk fyrir eitt mót fékk hún þegar hún náði sínum besta árangri á Indy Women in Tech-mótinu í júlí. Hún hafnaði þá í fjórða sæti og fékk tæplega 103 þúsund dollara fyrir eða rúmar 10 milljónir króna.

mbl.is