Færðu sig upp á skaftið

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Á árinu sem senn er á enda hefur komið fram að það sé einstakt í sögu golfíþróttarinnar á Íslandi vegna árangurs atvinnumanna. Fleiri kylfingar af báðum kynjum reyna nú við atvinnumennskuna og í ár var eins og ísinn hafi loks brotnað eftir mögur ár. Eða ísbreiða öllur heldur.

Í lok síðasta árs náðu reyndar þær Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir að komast inn á stóru mótaraðirnar með frábærri spilamennsku. En væntanlega bjuggust fáir við því sem á eftir fylgdi. Morgunblaðið tók saman þau afrek sem ekki áttu sér hliðstæðu hjá íslenskum kylfingum.

Ólafía keppti á bandarísku LPGA-mótaröðinni. Það hafði enginn Íslendingur gert. Ólafur Björn Loftsson hafði komist á stakt mót á PGA-mótaröðinni árið 2011. Þá fór hann í úrtökumót fyrir Wyndham-mótið og vann sér inn þátttökurétt. Ólafíu tókst með góðum árangri á árinu að endurnýja keppnisrétt sinn á mótaröðinni á næsta ári. Með því komst hún til að mynda á lokamótið, Tour Championship, þar sem fjöldi keppenda er mjög takmarkaður.

Stærstu tíðindin voru þau að hún varð fyrsti Íslendingurinn til að keppa á risamóti í golfi þegar hún var með á KPMG-mótinu í Illinois um mánaðamótin júní/júlí. Þeir sem fylgjast eitthvað með íþróttagreinum eins og golfi og tennis vita að risamótin eru þar langstærstu viðburðirnir, stundum kölluð Grand Slam.

Ítarlega er fjallað um árangur íslenskra kylfinga í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.