Góð auglýsing fyrir Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/LPGA

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, úr Golfklúbbi Reykjavíkur, verður ein níu kylfinga sem verja munu heiður Evrópu í fjögurra liða keppni í Japan sem hefst á miðnætti í kvöld að íslenskum tíma.

Þá er klukkan níu á föstudagsmorgni í Miyoshi í Japan þar sem mótið fer fram. Keppnin kallast The Queens sem líklega er heppilegast að þýða Drottningamótið í þessu samhengi.

Liðin fjögur eru úrvalslið Evrópu, Japans, Suður-Kóreu og Ástralíu og voru níu kylfingar valdir í hvert lið. Hér má skjóta því inn í, fyrir þá sem ekki þekkja, að hjá konunum eru geysilega margir heimsklassa kylfingar frá Asíu. Japan og Suður-Kórea fara þar af leiðandi létt með að tefla fram samkeppnisfærum liðum gegn heilu heimsálfunum eins og Evrópu.

Kylfingarnir koma til með að keppa í þrjá daga, 1. til 3. desember. Fyrirkomulagið er holukeppni, ýmist tvímenningur eða fjórmenningur, eins og tíðkast í liðakeppnum en ekki höggleikur. Áhugafólk um golf þekkir til liðakeppna eins Ryder-bikarsins, Solheim-bikarsins og Forsetabikarsins en þá eru tvö lið að keppa. Í Drottningamótinu eru hins vegar fjögur lið og því um annars konar mót að ræða.

Sjá meira um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag