Tiger tekur risastökk

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods tekur risastökk á heimslistanum í golfi en Tiger hafnaði í 9. sæti á Hero World Challenge-mótinu sem lauk á Bahamaeyjum í gærkvöld.

Tiger, sem var að keppa á sínu fyrsta móti í 10 mánuði, fer upp um 531 sæti og er í 668. sæti á heimslistanum. Axel Bóasson er efstur af íslenskum kylfingum á heimslistanum en hann er í 450. sæti og Birgir Leifur Hafþórsson í 460. sæti.

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson er sem fyrr efstur á heimslistanum en hann hefur verið í toppsæti listans 42 vikur í röð. Í öðru sæti er Bandaríkjamaðurinn Jordan Spieth og landi hans, Justin Thomas, í þriðja sæti.

mbl.is