Góður hringur hjá Guðrúnu Brá

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur úr Keili heldur áfram að gera góða hluti á lokaúrtökumótinu fyrir LET-Evrópumótaröðina sem fram fer í Marokkó.

Guðrún Brá lék þriðja hringinn í dag á 70 höggum eða tveimur höggum undir pari og hún er samtals tveimur höggum undir pari og er, þegar þetta er skrifað, í 28.-37. sæti.

Alls eru 106 keppendur frá 18 þjóðum sem keppa á tveimur völlum, Amelkis og Palm Golf Ourika Marrakech. Alls eru leiknir fimm 18 holu hringir og komast 60 efstu áfram á lokahringinn.

Alls komast 25 efstu á LET-Evrópumótaröðina. Fimm efstu komast í styrkleikaflokk 5b og þær sem enda í sætum 6.-25. verða í styrkleikaflokki 8a.

Þetta er í fyrsta sinn sem Guðrún Brá reynir fyrir sér á úrtökumótinu fyrir LET. Alls eru 53 leikmenn á úrtökumótinu sem eru í fyrsta sinn á lokaúrtökumótinu.

mbl.is