Verður Guðrún fjórða?

Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Guðrún Brá Björgvinsdóttir mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili jók í gær vonir sínar um að verða fjórða íslenska konan frá upphafi til að komast inn á Evrópumótaröðina í golfi. Guðrún er meðal keppenda á lokaúrtökumótinu í Marokkó.

Hún er samtals á tveimur höggum undir pari eftir þrjá hringi, en hún hefur leikið tvo síðustu hringi á -2 höggum hvorn.

Guðrún er í 31.-37. sæti en 25 efstu keppendur að loknum fimm hringjum fá þátttökurétt á Evrópumótaröðinni. Guðrún er höggi frá 25. sætinu. Eftir keppni í dag munu aðeins sextíu efstu kylfingarnir fá að leika lokahringinn.

Ólöf María Jónsdóttir, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir hafa áður afrekað það á sínum ferli að komast á Evrópumótaröðina.