Aflýst hjá Ólafíu í dag

Ólafía Þórunn á Bahamaeyjum í gær.
Ólafía Þórunn á Bahamaeyjum í gær. Ljósmynd/Gabe Roux

Keppni á Pure Silk mótinu í  golfi á LPGA-mótaröðinni á Bahamaeyjum hefur verið aflýst í dag vegna veðurs og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir þarf því að bíða morguns ásamt öðrum kylfingum til að geta leikið annan hring mótsins.

Mikið rok er á Paradísareyju, þar sem mótið fer fram. Fyrr í dag var fyrsta hringnum lokið, nokkrir kylfingar gátu ekki lokið keppni í gærkvöld vegna myrkurs, en skilyrði í gær vor mjög erfið vegna roksins. Nú hefur heldur gefið í vindinn og mótshaldarar komust að þeirri niðurstöðu að ekki yrði leikfært í dag.

Mótinu verður haldið áfram á morgun, frá klukkan 7.30 að staðartíma, en þá er klukkan 12.30 að íslenskum tíma. 

Ólafía lék fyrsta hringinn í gær á 77 höggum eða 4 höggum yfir pari og er í 69.-76. sæti ásamt fleiri kylfingum. Það myndi þó nægja henni til að komast áfram en í kringum 70 fyrstu halda áfram keppni eftir tvo hringi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert