Ólafía fer af stað seinni partinn

Ólafía Þórunn á Bahamaeyjum í gær.
Ólafía Þórunn á Bahamaeyjum í gær. Ljósmynd/GSÍ

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, kylfingur úr GR, fer í dag af stað á öðrum hring Pure Silk-mótsins á Bahamaeyjum og þarf að rétta úr kútnum ætli hún sér í gegnum niðurskurðinn.

Ólafía á rástíma klukkan 11.36 að staðartíma, eða 16.26 að íslenskum tíma. Hún er fjórum höggum yfir pari eftir fyrsta hring, en nú stendur niðurskurðarlínan við þrjú högg yfir pari. Ólafía byrjar á 10. brautinni í dag.

Fresta þurfti leik í gær vegna myrkurs þegar 12 kylfingar áttu eftir að klára fyrsta hring en þær munu ljúka honum í dag.  Broke Henderson frá Bandaríkjunum er ein í efsta sæti á fimm höggum undir pari, níu höggum á undan Ólafíu Þórunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert