Valdís heldur til á suðurhveli næstu vikurnar

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Valdís Þóra Jónsdóttir, Íslandsmeistari í golfi úr Leyni, mun taka mótatörn í Asíu og Suður-Afríku á næstunni.

Eins og fram kom í blaðinu í gær þá leikur hún á fyrsta móti sínu á keppnistímabilinu á Evrópumótaröðinni í Bellarine Peninsula í Victoria-fylki í Ástralíu. Þar mun hún hefja leik í nótt klukkan 1.40 að íslenskum tíma, en þá er komið hádegi á fimmtudegi í Ástralíu.

Valdís tjáði Morgunblaðinu í gær að hún muni eyða talsverðum tíma í Ástralíu á næstunni.

„Já, það verða að minnsta kosti fimm mót hjá mér á næstu sex vikum. Fjögur þeirra verða í Ástralíu og eitt í Suður-Afríku,“ sagði Valdís sem skilaði sér á keppnisstað í byrjun vikunnar eftir þrjátíu tíma ferðalag. Hún hefur verið heima á Íslandi við æfingar að undanförnu.

Valdís er með hóflegar væntingar í fyrsta mótinu enda ekki komin í leikæfingu en vonast þó eftir að sjá afrakstur æfinga undanfarnar vikur. „Ég ætla bara að gera mitt besta og vonandi ná þeim atriðum inn í golfleikinn minn sem ég og mínir þjálfarar höfum verið að vinna með núna eftir jól,“ sagði Valdís en Selfyssingurinn Hlynur Geir Hjartarson hefur þjálfað hana síðustu ár. Hennar gamli þjálfari af Skaganum, Karl Karlsson, aðstoðar hana einnig varðandi púttin. Þau eru ekki að vinna með stórfelldar breytingar hvað tækniatriðin varðar.

Sjá allt viðtalið við Valdísi í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert