Valdís úr leik í Ástralíu

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/Ladies European Tour

Valdís Þóra Jónsdóttir atvinnukylfingur náði sér ekki á strik á þriðja hringnum á Oates Vic Open-mótinu í Evrópumótaröðinni í Victoria-fylki í Ástralíu í morgun.

Valdís hóf keppni í 30. sæti eftir að hafa leikið mjög vel á seinni hluta annars hrings í gærmorgun. Hún lék hins vegar hringinn í morgun á sex höggum yfir pari, 79 höggum, og er því samtals á sjö höggum yfir pari, 226 höggum, í 51.-53. sæti. Þar sem annar niðurskurður var eftir þriðja hringinn og 36 efstu fá að leika síðasta hringinn á morgun hefur Valdís Þóra lokið keppni.

Til að komast áfram hefði hún þurft að vera á þremur höggum yfir pari samtals, 222 höggum, eftir hringinn í morgun. 

Það var byrjunin sem felldi Valdísi en hún fékk þrjá skolla og einn skramba á fyrstu sjö holunum.

mbl.is