Sögulegt mót í Ástralíu

Valdís Þóra Jónsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/GSÍ

Söguleg stund fyrir íslenskt golf rennur upp í kvöld þegar keppni hefst á Opna ástralska mótinu í kvennaflokki, ISPS Handa-mótinu í Adelaide. Þá eru í fyrsta skipti tveir íslenskir atvinnukylfingar á meðal þátttakenda á sterkustu mótaröð í heimi, LPGA, en þetta er annað mót tímabilsins í mótaröðinni.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er á meðal þátttakenda eins og fyrir lá í byrjun. Hún er í ráshópi með bandarísku kylfingunum Cydney Clanton og Angelu Stanford. Stanford er í 75. sæti á heimslistanum, Clanton í 134. sæti og Ólafía er í 170. sæti. Þær hefja leik í kvöld klukkan 21.06 að íslenskum tíma. Þá er klukkan 08.06 á fimmtudagsmorgni í Adelaide.

Ólafía hafnaði í 26. sæti á fyrsta mótinu á Bahamaeyjum í lok janúar og er því í góðri stöðu strax í byrjun mótaraðarinnar.

Valdís Þóra Jónsdóttir tryggði sér keppnisrétt á mótinu með frábærum hring á úrtökumóti í gærmorgun. Hún lék á 3 höggum undir pari, varð efst ásamt tveimur öðrum af 100 kylfingum, og þær þrjár náðu þremur lausum sætum á mótinu í Adelaide.

Valdís verður mun seinna á ferð en Ólafía, byrjar klukkan 02.29 í nótt, 13.29 að staðartíma, en með henni í ráshópi eru Paula Reto frá Suður-Afríku og Saranporn Langkulgasettrin frá Taílandi. Langkulgasettrin er í 202. sæti heimslistans, Reto í 313. sæti og Valdís er í 403. sæti.

Þær Ólafía og Valdís verða áfram í Ástralíu og keppa báðar á móti á Evrópumótaröðinni sem fram fer í Bonville 22.-25. febrúar. Ólafía tekur því ekki þátt í þriðja LPGA-móti tímabilsins sem fer fram í Taílandi á sama tíma. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert