Ein braut skemmdi fyrir Tiger

Tiger Woods í skemmtilegri stellingu í dag.
Tiger Woods í skemmtilegri stellingu í dag. AFP

Ferill eins þekktasta kylfings sögunnar, Tiger Woods, er loks kominn almennilega í gang á ný eftir áralöng meiðsli og vandræði í einkalífinu. Woods hóf leik á öðru móti sínu á árinu í PGA-mótaröðinni í dag, en hann er meðal keppenda á Genesis-mótinu, sem fram fer í Kaliforníu.

Woods fór vel af stað og fékk fugl strax á fyrstu braut en hann hóf leik á 10. teig. 11. brautin fór hins vegar illa með Tiger. Hún er par 5, en hann lék hana á sjö höggum og fékk því tvöfaldan skolla. Hann lék síðustu sjö holurnar á fyrri níu á parinu. Woods fékk fugl á 1. braut sem var hans tíunda á hringnum en tvo skolla á 5. og 7. braut. Hann fékk aftur fugl á 8. braut og endaði því hringinn á einu höggi yfir pari og í 79. sæti.

Rory McIlroy, sem var í sama ráshóp og Tiger, er í 47. sæti á pari og Justin Thomas, sem vann mótaröðina á síðasta tímabili er í 14. sæti á tveimur höggum undir pari, en þeir voru allir í sama ráshópi. Þegar fréttin er skrifuð er Tony Finau efstur á fimm höggum undir pari, þrátt fyrir að eiga enn átta brautir eftir á hringnum.

Tony Finau er efstur.
Tony Finau er efstur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert