„Við styðjum hvor aðra“

Valdís Þóra og Ólafía Þórunn.
Valdís Þóra og Ólafía Þórunn. Ljósmynd/GSÍ

„Hringurinn var nokkuð góður fyrir utan 17. holuna þar sem ég fór í tjörn og fékk víti og ég missi nokkur stutt pútt. Heilt yfir var þetta bara gott. Ég sló vel og kom mér í helling af færum,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir í viðtali við LPGA eftir fyrsta hringinn á opna ástralska mótinu í golfi í Adelai­de í morgun.

Valdís Þóra, sem vann sér keppnisréttinn með flottri spilamennsku á úrtökumóti í vikunni, lék fyrsta hringinn á 72 höggum eða á pari vallarins.

„Ég er mjög ánægð að hafa komist inn á mótið. Þetta er gott tækifæri, það er gaman að vera hérna og völlurinn er mjög skemmtilegur. Ég fann ekki fyrir miklu stressi en opna bandaríska mótið sem ég tók þátt í á síðasta ári gefur mér góða reynslu fyrir þetta mót. Ég var bara spennt að fara að spila og spennt að komast loksins út á völlinn sem ég er að spila á í fyrsta skipti.

Markmiðið er að komast í gegnum niðurskurðinn og spila mitt golf áfram. Ég er að gera góða hluti og ég vil hafa gaman af þessu. Ég hitti Ólafíu í gær og við vorum ánægðar að sjá hvor aðra. Við styðjum hvor aðra og viljum sjá okkur gera góða hluti á öllum þeim mótum sem við tökum þátt í,“ sagði Valdís Þóra.

Ólafía Þórunn lék fyrsta hringinn á 74 höggum eða á tveimur höggum yfir pari en þetta er í fyrsta sinn sem tveir kylfingar frá Íslandi keppa samtímis í sterkustu mótaröð heims í kvennaflokki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert