Köflóttur hringur Valdísar

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Valdís Þóra Jónsdóttir atvinnukylfingur náði ekki að fylgja eftir frábærri byrjun á þriðja hring Opna ástralska mótsins í golfi í Adelaide í nótt og endaði á því að leika hringinn á 74 höggum, eða tveimur höggum yfir pari vallarins.

Hún er þar með samtals á 218 höggum, tveimur yfir pari, eftir að hafa spilað tvo fyrstu hringina á 72 höggum, og er í 50.-61. sæti fyrir lokahringinn næstu nótt.

Valdís fékk þrjá fugla á fyrstu fjórum holunum og var þar með komin upp í 8. sætið. Hún fékk skolla á fimmtu holu en lék þrjár næstu á pari.

Þá kom slæmur kafli, tveir tvöfaldir skollar í röð á 9. og 10. holu, þá par, og skolli á 12. holu. Þar með var Valdís skyndilega komin á þrjú högg yfir parinu. Á siðustu sex holunum fékk hún síðan tvo fugla, einn skolla og þrjú pör.

Jin Young Ko frá Suður-Kóreu er með góða forystu fyrir lokahringinn en hún er á 205 höggum, 11 yfir pari, og með fjögurra högga forskot á Hannah Green frá Ástralíu sem átti frábæran hring, 66 högg, og komst í annað sætið á 209 höggum, sjö yfir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert