Tiger skipaður varafyrirliði

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP

Jim Furyk, fyrirliði bandaríska Ryder-liðsins í golfi, hefur valið Tiger Woods og Steve Stricker sem varafyrirliða fyrir Ryder-bikarinn sem verður á Le Golf National-vellinum rétt fyrir utan París í Frakklandi í september.

Bandaríkjamenn, sem eiga titil að verja frá sigrinum í Hazeltine 2016, hafa ekki unnið Ryder-bikarinn í Evrópu síðan árið 1993.

„Að vinna í París verður mikil áskorun. Það er mikilvægt fyrir mig og bandarískt golf að hafa þá Steve og Tiger. Þekking þeirra og reynsla verður mjög mikilvæg í þeim markmiðum okkar að halda titlinum,“ sagði Furyk þegar hann tilkynnti ákvörðun sína.

Tiger vonast til þess að verða spilandi varaliði í Ryder-bikarnum í París en Furyk segir að það verði erfitt að uppfylla þær óskir. Tiger lék síðast í Ryder-bikarnum árið 2012 en hann var í hlutverki varafyrirliða í keppninni fyrir tveimur árum.

mbl.is