Valdís önnur, Ólafía enn á uppleið

Valdís Þóra Jónsdóttir á mótinu í Bonville.
Valdís Þóra Jónsdóttir á mótinu í Bonville. Ljósmynd/Tristan Jones

Valdís Þóra Jónsdóttir er komin í annað sætið á Australian Ladies Classic-golfmótinu í Ástralíu en hún hóf leik á fjórða og síðasta hring mótsins klukkan hálftólf í kvöld að íslenskum tíma, eða klukkan hálfellefu á sunnudagsmorgni í Ástralíu.

Hún hefur leikið fjórar holur, þrjá fyrstu á pari en fékk fugl á þeirri fjórðu, og er samtals á sex höggum undir pari, jöfn í 2.-4. sætinu. Celine Boutier frá Frakklandi er efst á 11 undir pari og Katie Burnett frá Bandaríkjunum og Olivie Cowan frá Þýskalandi eru jafnar Valdísi.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fór af stað 50 mínútum á undan Valdísi. Hún var í 20. sæti þegar fjórði hringur hófst og er nú komin upp í 14. sætið eftir að hafa leikið fyrstu sjö holurnar á einu undir pari, þar sem hún hefur fengið tvo fugla og einn skolla. Ólafía er nú komin á parið samanlagt en var um tíma á níu höggum yfir pari á öðrum hring mótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert