Valdís varð þriðja í Bonville

Valdís Þóra Jónsdóttir á mótinu í Ástralíu.
Valdís Þóra Jónsdóttir á mótinu í Ástralíu. Ljósmynd/Tristan Jones

Valdís Þóra Jónsdóttir hafnaði í þriðja sæti á Australian Ladies Classic-golfmótinu sem var að ljúka í Bonville í Ástralíu rétt í þessu. 

Valdís tryggði sér þriðja sætið með því að fá fugl á síðustu holunni og hún lék þar með lokahringinn í morgun á 70 höggum, tveimur undir pari. Hún fékk fjóra fugla og tvo skolla á hringnum, lék 12 holur á pari, og endaði mótið á því að fá fugl á 18. og síðustu holunni.

Valdís endaði þar með samtals á 7 höggum undir pari, lék hringina fjóra á 69, 70, 72 og 70 höggum, og varð þremur höggum á eftir sigurvegaranum, Celine Boutier frá Frakklandi, en hún lék samanlagt á 10 höggum undir pari.

Katie Burnett frá Bandaríkjunum náði öðru sætinu með fugli á átjándu holu á lokahringnum og lék samtals á 8 höggum undir pari.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hafnaði í 14.-15. sæti á mótinu í Bonville eftir að hafa leikið síðasta hringinn á 71 höggi, einu höggi undir pari. Hún fékk þrjá fugla á lokahringnum, tvo skolla, en lék hinar þrettán holurnar á pari. Ólafía byrjaði mótið illa, lék fyrsta hringinn á 80 höggum og fór illa af stað á öðrum hring. Þar átti hún frábæran endasprett, lék á 70 höggum og komst naumlega í gegnum niðurskurð. Síðan hækkaði hún sig jafnt og þétt um helgina efti að hafa leikið best allra á 67 höggum á þriðja hringnum í fyrrinótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert