Stenson efstur – Tiger sótti sig á ný

Henrik Stenson slær úr sandgryfju á 17. holunni í gær.
Henrik Stenson slær úr sandgryfju á 17. holunni í gær. AFP

Svíinn Henrik Stenson er með eins höggs forystu fyrir lokahringinn á Arnold Palmer boðsmótinu í Orlando í Flórída en lék þó þriðja hringinn í gær á 71 höggi.

Stenson hafði leikið listilega vel á fyrstu tveimur dögunum, sérstaklega á fimmtudag þegar hann spilaði á 64 höggum, en hann var síðan á 69 höggum á föstudag. Samtals er hann á 12 höggum undir pari fyrir lokasprettinn í dag.

Bryson DeChambeau er á hælum hans á 11 undir pari og Norður-Írinn Rory McIlroy er þriðji á 10 undir pari eftir að hafa spilað á 67 höggum í gær. Justin Rose frá Englandi var líka á 67 höggum og deilir fjórða sætinu.

Tiger Woods rétti sig af í gær eftir að hafa sigið niður töfluna á föstudag. Hann lék á 69 höggum í gær, þremur undir pari, og er samtals á sjö höggum undir pari í 10. til 13. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert