Keppir við þær allra bestu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/LPGA

Fyrsta risamót ársins í golfinu hefst í Kaliforníuríki í dag þegar kylfingar verða ræstir út á ANA Inspiration-mótinu. Þar eigum við Íslendingar fulltrúa en Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er þar með keppnisrétt vegna síns góða árangurs á LPGA-mótaröðinni 2017 þegar hún varð á meðal 75 efstu á stigalista LPGA.

Ólafía varð í fyrra fyrsti Íslendingurinn til að komast á risamót þegar hún lék á KPMG-mótinu í Chicago og bætti tveimur við, Opna breska meistaramótinu og Evian-mótinu í Frakklandi, en í hinu síðarnefnda komst hún í gegnum niðurskurðinn. Þá keppti Valdís Þóra Jónsdóttir á Opna bandaríska meistaramótinu.

Risamótin eru fimm talsins hjá konunum en öllu þekktara er að hafa þau fjögur eins og hjá körlunum í golfinu og báðum kynjum í tennis. Risamótin hafa ákveðna sérstöðu því þar er meira í húfi. Ekki er einungis hærra verðlaunafé í boði heldur gefur góður árangur á risamótunum ýmiss konar keppnisrétt. Fyrir vikið mæta allir bestu kylfingar heims sem eiga þess kost.

Kylfingur sem fagnar sigri á risamóti þarf ekki að hafa áhyggjur af keppnisrétti á bestu mótaröðunum næstu árin á eftir. Fyrir utan hið áþreifanlega eru fleiri atriði sem skipta máli en eru ekki eins áþreifanleg. Þegar bestu kylfingar á hverjum tíma, eða bestu kylfingar sögunnar, eru bornir saman er iðulega notast við frammistöðu þeirra á risamótum.

Nánar er fjallað um Ólafíu Þórunni og þátttöku hennar á mótinu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert