Hrökk úr lið eftir holu í höggi (myndskeið)

Tony Finau fagnar draumahögginu rétt áður en ósköpin dundu yfir.
Tony Finau fagnar draumahögginu rétt áður en ósköpin dundu yfir. AFP

Það er ekki á hverjum degi sem kylfingar ná draumahögginu og því skiljanlegt að því sé fagnað. Það getur þó dregið dilk á eftir sér eins og Tony Finau kynntist í dag.

Hann var þá í eldlínunni á hinu svokallaða par 3 móti sem er undanfari Masters-mótsins sem hefst á morgun. Á sjöundu holu náði hann draumahögginu og ætlaði að hlaupa til fjölskyldu sinnar til þess að fagna þegar ósköpin dundu yfir.

Svo virðist sem Finau hafi farið úr ökklalið, en hann náði að smella ökklanum aftur í lið áður en hann haltraði af stað og kláraði síðustu tvær holurnar. Hann neitaði svo að ræða við fjölmiðla eftir hringinn, en hann á að taka þátt á sínu fyrsta Masters-móti á morgun.

Það var goðsögnin Tom Watson sem hrósaði sigri á þessu par 3 móti, en atvikið hjá Finau má sjá í meðfylgjandi myndskeiði sem mætti þó vara viðkvæma við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert