Meistarinn notaði 13 högg

Sergio Garcia á Augusta í dag.
Sergio Garcia á Augusta í dag. AFP

Masters-meistarinn 2017, Sergio Garcia frá Spáni, var í aðalhlutverki í pínlegri uppákomu á fyrsta hringnum á Masters-mótinu þegar hann setti óeftirsóknarvert met á 15. holunni á Augusta í kvöld. 

Garcia var á 15. holunni sem er par 5 með tjörn fyrir framan. Spánverjinn sló fimm bolta í röð í tjörnina og notaði 13 högg á holunni. Ótrúlegt en satt. Garcia var meira að segja með fleygjárn í höndunum og því um stutt högg að ræða. Flatirnar á Augusta eru stórhættulegar og Garcia fékk að kenna á því en í öllum tilfellum sló hann inn á flötina en þaðan rann boltinn út í tjörnina. 

Atburðarrásin minnti einna helst á atriði úr bíómyndinni Tin Cup með Kevin Costner. Aldrei fyrr hafa jafn mörg högg verið notuð á 15. holunni í langri sögu mótsins en metið var 11 högg. Þess má geta að Jordan Spieth notaði 9 högg á fyrsta hring á 15. holunni í fyrra og skemmdi það mjög sigurmöguleika hans því Spieth lék vel að öðru leyti í mótinu. 

Garcia er samtals á 10 höggum yfir pari eftir 15 holur og er meistarinn næstneðstur í mótinu sem stendur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert