Ólafía sex höggum frá niðurskurði

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði sér ekki á strik í Los ...
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði sér ekki á strik í Los Angeles. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lauk rétt í þessu keppni á LA Open-golfmótinu í LPGA-mótaröðinni í Los Angeles og hún var langt frá því að komast í gegnum niðurskurðinn að þessu sinni.

Eftir slæman fyrsta hring í gær, þar sem Ólafía lék á fjórum höggum yfir pari, þurfti hún að ná frábærum hring í dag til að eiga möguleika á að fara áfram.

Það gekk ekki eftir því hún lék á sex höggum yfir pari í dag og lauk því keppni á samtals 152 höggum, 10 yfir pari vallarins, og endar í 123.-125. sæti af 144 keppendum á mótinu.

Niðurskurðarlínan endaði á að vera við fjögur högg yfir pari þannig að það hefði nægt Ólafíu að leika völlinn á pari í dag til að fara áfram. En hún fékk aðeins einn fugl og síðan fimm skolla og einn skramba.

Eftir tvo hringi á mótinu er Moriya Jutanugarn frá Taílandi með forystu á 134 höggum, átta undir pari, en Marina Alex frá Bandaríkjunum er önnur, einu höggi á eftir henni.

mbl.is