Ólafía fór illa af stað

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/LPGA

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði sér ekki á strik á fyrsta hringnum á Medi­heal-meist­ara­mót­inu í golfi sem hófst í gærkvöld í San Francisco á vest­ur­strönd Banda­ríkj­anna en það er liður í LPGA-mótaröðinni.

Ólafía Þórunn lék hringinn á 77 höggum eða fimm höggum yfir pari og er í 120.-129. sæti. Hún þarf því að bæta sig ansi mikið í kvöld ef henni á að takast að komast í gegnum niðurskurðinn sem er miðaður við eitt högg yfir pari eins og staðan er núna.

Ólafía fékk skramba á annarri holunni, sem hún lék á sex höggum, og í kjölfarið fylgdu tveir skollar og hún var komin fjórum höggum yfir pari eftir fjórar holur. Henni tókst að krækja sér í tvo fugla á tveimur síðustu holunum á fyrri níu holunum sem hún lék á þremur höggum yfir pari.

Ólafía fékk svo þrjá skolla á fyrstu þremur holunum á seinni níu en fékk fugl á síðustu holunni eftir að hafa spilað fjórar holur í röð á parinu.

Carol­ine Hedwall frá Svíþjóð, Lydia Ko frá Nýja-Sjálandi, In-Kyung Kim frá Suður-Kór­eu og Jessica Korda frá Banda­ríkj­un­um eru efst­ar en þær léku allar hringinn á 68 högg­um, fjór­um und­ir pari.

Staðan á mótinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert