Birgir Leifur keppir á óhefðbundnu móti

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Ljósmynd/Sigurður Elvar

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG er á meðal keppenda á Evrópumótaröðinni, þeirri sterkustu í Evrópu, en á morgun hefst mót í Antwerpen í Belgíu.

Keppnisfyrirkomulagið er óhefðbundið á mótinu eins og golf.is greinir frá. Keppt er í höggleik fyrstu tvo hringina, en keppnisvöllurinn er blanda af holum á tveimur 18 holu völlum. Á öðrum er fyrsta holan leikin ásamt holum 11-18 og flokkast það sem fyrri níu holur mótsins. Á hinum vellinum eru svo leiknar holur 10-18 sem seinni níu holur mótsins.

Ekki lýkur hinu flókna fyrirkomulagi með því. 144 kylfingar hefja keppni og 64 efstu komast áfram í úrslitakeppni sem fram fer á laugardag og sunnudag. Þar verður keppendum skipt upp í tvo riðla. Þrjár umferðir verða leiknar í riðlinum á laugardag, 9 holur í hverri umferð. Sá aðili sem leikur á færri höggum í sínum leik kemst áfram í næstu umferð. Alls komast 8 efstu áfram úr hvorum riðli á laugardeginum. Á lokahringnum verður sami háttur hafður á, leiknir verða þrír 9 holu hringir og í lokaumferðinni ráðast úrslitin í hreinum 9 holu úrslitaleik.

Birgir Leifur er í ráshópi með Marcus Armitage og Johan Carlsson fyrstu tvo keppnisdagana. Þeir fara af stað klukkan 5.40 að íslenskum tíma á morgun eða 7.40 að staðartíma.

mbl.is