Ólafía getur enn komist áfram

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Enn er ekki á hreinu hvort Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur komist í gegnum niðurskurðinn á Kingsmill meistaramótinu í Williamsburg í Virginíu en keppni var aflýst í kvöld vegna veðurs áður en 60 keppendur af 144 höfðu náð að ljúka öðrum hring.

Ólafía lauk öðrum hring mótsins á pari í kvöld, rétt eins og fyrsta hringnum í gær, en fór illa að ráði sínu þegar hún fékk skramba og skolla á tveimur síðustu holunum. Að öðrum kosti hefði hún verið örugg áfram.

Ólafía er nú í 77.-88. sæti á pari, en niðurskurðarlínan er sem stendur miðuð við eitt högg undir pari. En þar sem margir þeirra keppenda sem eru á pari eða einu undir pari eru ekki búnir með annan hring getur staðan enn breyst talsvert.

Í tilkynningu frá mótshöldurum í kvöld var sagt að aðstæður hefðu verið metnar óleikhæfar um klukkan 23.25 að íslenskum tíma. Keppni muni halda áfram í fyrramálið, klukkan 11.30 að íslenskum tíma, og þá ljúki þessir 60 keppendur öðrum hring. Þriðji hringurinn eigi síðan að hefjast klukkan 14.30 að íslenskum tíma.

Ólafía bíður því áfram eftir niðurstöðunni og hvort hún komist áfram og spili þriðja og fjórða hring mótsins um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert