Finna þarf sína eigin uppskrift að árangri

Annika Sörenstam umkringd fréttamönnum og ljósmyndurum í Texas árið 2003 …
Annika Sörenstam umkringd fréttamönnum og ljósmyndurum í Texas árið 2003 þegar hún varð fyrst kvenna í 58 ár til að keppa á PGA-móti með körlum. AFP

Einn sigursælasti kylfingur sögunnar, Annika Sörenstam, er væntanleg til Íslands í júní og mun meðal annars heilsa upp á íslenska kylfinga. Sörenstam lét staðar numið í keppnisgolfi árið 2008 en hefur nóg fyrir stafni varðandi eitt og annað sem tengist golfinu. Hefur hún til að mynda látið mjög að sér kveða varðandi barna- og unglingastarf en einnig reynt að auka áhuga stúlkna á íþróttinni. Morgunblaðið náði tali af Sörenstam og spurði hana fyrst hvað drægi hana til Íslands?

„Fyrir heimsókninni eru nokkrar ástæður. Bestu vinir okkar hjónanna eru frá Íslandi en eru búsett í Orlando. Okkur langaði til að heimsækja þau til Íslands. Auk þess mun ég skoða mig um til að sjá fallega staði og ég er spennt fyrir því. Einnig verður skemmtilegt að kynnast lítillega golfhreyfingunni á Íslandi og þá sérstaklega barna- og unglingastarfinu,“ sagði Sörenstam sem ekki hefur dvalið á Íslandi fyrr og segist ekki telja það með að hafa millilent í Keflavík.

Sörenstam sigraði sjötíu og tvisvar á LPGA-mótaröðinni bandarísku, þar sem Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er með keppnisrétt. Fylgist Sörenstam með gangi mála á LPGA? „Já, ég fylgist ágætlega með LPGA. Golf verður væntanlega alltaf hluti af mínu lífi í einhverri mynd og því sem ég er að fást við. Ég á vinkonur á mótaröðunum víða um heim og fylgist því með. Maður tekur eftir fjölbreyttu þjóðerni kylfinganna og á LPGA koma þeir víða að úr heiminum. Ég hef ekki séð Ólafíu að neinu ráði í keppni en hef séð til hennar á mótum sem ég hef sótt. Sá hana slá á æfingasvæðinu og þess háttar.“ 

Hægt að finna leiðir til að æfa

Annika Sörenstam er frá Svíþjóð og þaðan er hennar grunnur í íþróttum kominn. Hún fluttist til Bandaríkjanna þegar hún fór í háskólanám og hefur dvalist þar síðan. Hvað getur hún ráðlagt kylfingum sem alast upp í norðurhluta Evrópu en vilja komast á toppinn í íþróttinni líkt og hún gerði?

Annika Sörenstam með bikarinn eftir sigur á US Open árið …
Annika Sörenstam með bikarinn eftir sigur á US Open árið 2006 á Rhode Island. AFP

„Í fyrsta lagi þá telja margir að möguleikar þeirra sem alast upp norðarlega á hnettinum séu minni en annarra sem búa við hlýrra loftslag. Hins vegar er raunin sú að maður finnur leiðir til að æfa, hvort sem þar er innandyra eða í æfingabúðum í heitari löndum. Heimurinn hefur minnkað og því er hægt að finna leiðir. Einn möguleikinn í stöðunni er að fara í háskóla í Bandaríkjunum þar sem hægt er að æfa og keppa meðfram námi. Þótt þú sért frá norðurslóðum þá þýðir það ekki að þú getir ekki orðið atvinnukylfingur. Aðalmálið er að finna leiðir til að bæta sig.

Einnig á ungt íþróttafólk ekki að vera feimið við að elta draumana. Slá til og gefa sér færi á að ná langt en ef fólk kýs að fara þá leið þá þarf að færa fórnir. Ég þurfti sjálf að fórna ýmsu en ég fór þá leið að fara til Bandaríkjanna í háskóla og settist hér að golfsins vegna, fjarri heimkynnum mínum. Hefði ég búið áfram í Svíþjóð þá hefði ég tæplega getað verið á LPGA-mótaröðinni. Þess vegna getur fólk þurft að flytja í burtu frá fjölskyldu og vinum til að láta drauma sína rætast í íþróttunum.

Fyrsta árið í atvinnumennskunni er alltaf erfitt og maður þarf að finna sína eigin uppskrift sem virkar. Slíkt getur tekið tíma og ég þykist vita að Ólafía sé í slíku aðlögunarferli. Ég veit að hún fór í Wake Forrest-skólann og að hennar fyrsta ár á LPGA-mótaröðinni var í fyrra. Hún þarf að vera þolinmóð og vinnusöm og sjá hverju það skilar.“

Annika Sörenstam á móti í Kaliforníu árið 2005.
Annika Sörenstam á móti í Kaliforníu árið 2005. AFP

Æfði einnig tennis

Við Íslendingar getum vafalaust lært eitt og annað af Svíum þegar kemur að afreksíþróttum. Svíar hafa átt fjölmargt heimsklassa íþróttafólk í ýmsum greinum. Í golfinu stendur Sörenstam fremst en einnig kemur Henrik Stenson frá Svíþjóð svo einhver sé nefndur. Eini karlinn frá Norðurlöndunum sem unnið hefur risamót í golfi. Spurð út í árangur Svía og vinnubrögð segir Sörenstam fjölbreytta íþróttaiðkun vera í boði fyrir börn í Svíþjóð.

„Svíar eru mikil íþróttaþjóð. Ég myndi segja að árangurinn væri íþróttaiðkun í grunnskólum að þakka, sérsamböndunum og þeirra metnaði varðandi barna- og unglingastarfið. Börn og unglingar fá tækifæri til að æfa ýmsar íþróttir undir handleiðslu fagfólks. Ég er þeirrar skoðunar að hollt sé að prófa ýmsar íþróttir. Það gerðum við í Svíþjóð þegar ég var að alast upp og sjálf æfði ég til að mynda tennis.

Um sextán ára aldurinn gerði ég það upp við mig að tími væri kominn til að velja íþróttagrein. Hér í Bandaríkjunum er mælt með því að velja íþróttagrein um 12 ára aldurinn sem mér þykir vera of snemmt. Ég er ekki fylgjandi slíkri sérhæfingu hjá krökkunum en skoðanir um þetta eru skiptar.“

Aðstoðar stúlkur í golfi

Eflaust segir það nokkuð um orðspor Sörenstam, og hversu mikillar virðingar hún nýtur, að áratug eftir að hún hætti sem afrekskylfingur eru enn átta styrktaraðilar sem vilja vinna með henni. Í hvað hefur Sörenstam eytt tíma sínum eftir að keppnisferlinum sleppti?

Annika Sörenstam fagnar á stórmóti.
Annika Sörenstam fagnar á stórmóti. Reuters

„Ég er viðloðandi golfíþróttina. Samtök sem ég á aðkomu að hafa staðið fyrir sex golfmótum fyrir ungmenni víða um heim á ári og þau verða fljótlega sjö. Við reynum að vekja áhuga stúlkna á golfíþróttinni en mótin hafa verið haldin í Evrópu, Kína, Suður-Ameríku og Bandaríkjunum. Ég hef eytt talsverðum tíma með ungum stúlkum í golfi og reyni að búa til tækifæri fyrir þær. Auk þess er ég með fatalínu og hef komið að hönnun golfvalla.

Við þetta má bæta að ég er enn í samstarfi við átta styrktaraðila og sinni ásamt þeim ýmsum góðgerðamálum. Ég hef því nóg fyrir stafni og hef gaman að því sem ég er að gera. Á morgun mun ég til dæmis fara til Minneapolis til að vera viðstödd opnun golfvallar. Ég er spennt fyrir því enda sá fyrsti völlurinn í Bandaríkjunum sem ég á þátt í að hanna.“

Náði lengra en hún bjóst við

Maður þarf ekki að ræða lengi við Sörenstam til að fá þá tilfinningu að hún sé hógvær og jarðbundin þrátt fyrir öll afrekin. Hefur hún verið heiðruð á ýmsan hátt fyrir afrek sín eins og sjá má í samantekt sem fylgir þessu viðtali. Varla er hægt að nota annað orð en goðsögn varðandi hana sem kylfing. Gera allar þessar viðurkenningar og vegtyllur mikið fyrir hana?

„Ég er mjög stolt af afrekum mínum. Þegar ég lít til baka á feril minn sem kylfingur þá var hann frábær og ég lagði mikið á mig til að svo mætti verða. Helgaði mig íþróttinni í langan tíma. Ég náði þó lengra en ég átti von á. Því fylgir notaleg tilfinning þegar maður hittir kylfinga og þeir þekkja minn feril. En svona frá degi til dags þá lít ég frekar á mig sem móður, eiginkonu og athafnakonu.“

Sögulega góður hringur

Sörenstam varð fyrst kvenna til að spila hring undir 60 höggum í móti á stóru mótaröðunum. Hún lék Moon Valley-völlinn á 59 höggum á Standard Register-mótinu. Hún fékk þrettán fugla og þar af fugl á fyrstu átta holunum. Vert er að geta þess að þá höfðu ekki orðið jafn miklar framfarir í hönnun á boltum og kylfum og síðar varð. Hvernig tifinning fylgir því að spila á 59 höggum í móti, svona fyrir okkur sem aldrei munum kynnast því? Nú hlær sú sænska en draumahringurinn er henni greinilega í fersku minni.

Stund á milli stríða á stórmóti hjá Anniku Sörenstam.
Stund á milli stríða á stórmóti hjá Anniku Sörenstam. AFP

„16. mars 2001 virtist allt vera svo auðvelt á golfvellinum. Mér fannst ég alltaf vera með rétta kylfu í höndunum, fannst ég ávallt geta slegið á rétta staði á flötunum og þótti holan vera risastór. Meðan á hringnum stóð var spilamennskan áreynslulítil. Ég mun alltaf horfa til baka og velta fyrir mér hvernig ég fór að þessu en um leið velti ég því fyrir mér hvers vegna ég gat ekki gert þetta á hverjum degi.

Ég hugsaði með mér að þetta gæti ég afrekað aftur en það er ekki einfalt. Þessi hringur er einn af hápunktunum á mínum ferli. Það er á hreinu,“ sagði Annika Sörenstam í samtali við Morgunblaðið en hérlendis mun hún hitta bæði almenna kylfinga sem og afrekskylfinga 10. og 11. júní.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert