Guðrún Brá fór holu í höggi

Guðrún Brá Björgvinsdóttir ánægð með áfangann.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir ánægð með áfangann. Ljósmynd/golf.is

Kylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir hafnaði í 25. sæti á Viaplay Ladies Finnish Open sem fram fór á Messilä Golf í Finnlandi. Mótið er hluti af LET Access-atvinnumótaröðinni sem er næststerkasta atvinnumótaröð í kvennaflokki í Evrópu.

Guðrún lék þrjá hringi á samanlagt 223 höggum eða sjö höggum yfir pari. Guðrún gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 15. braut, en þetta er í fyrsta skipti sem Guðrún nær þeim áfanga. 

Berglind Björnsdóttir komst hins vegar ekki í gegnum niðurskurðinn þar sem hún lék fyrstu tvo hringina á 159 höggum eða samanlagt 15 höggum yfir pari. 

mbl.is