Konurnar á ferð og flugi í golfinu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, úr Golfklúbbi Reykjavíkur, hefur leik í dag á móti á LPGA-mótaröðinni í golfi sem haldin er í Arkansas-ríki, á heimaslóðum kylfingsins Johns Daly og Bills Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Mótið ber nafn Walmart og er 54 holur en ekki 72 holur eins og algengast er á LPGA. Hefst mótið þar af leiðandi á föstudegi en ekki fimmtudegi.

Ólafía á rástíma á 10. teig klukkan 9:31 að staðartíma eða klukkan 14:30 að íslenskum tíma. Ólafía verður í ráshópi með Jane Park frá Bandaríkjunum og Anne Catherine Tanguay frá Kanada. Park er 31 árs og hefur átt ágætan feril á mótaröðinni þótt henni hafi ekki tekist að vinna mót. Hefur tólf sinnum hafnað á meðal tíu efstu og náði 5. sæti á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2015.

Ólafía hafnaði í 58. sæti í síðasta móti sem hún tók þátt í en henni hefur það sem af er ári ekki gengið eins vel og í fyrra. Hún er nú í 238. sæti heimslistans.

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni lék vel á fyrsta hringnum á móti í Taílandi á Evrópumótaröðinni í gær. Valdís var á 71 höggi og var á höggi undir pari vallarins. Hún fór af stað klukkan 7 að staðartíma og slapp að einhverju leyti við mesta hitann. Á samskiptamiðlum sagðist hún fá að finna fyrir hitanum á öðrum hringnum í dag en þá á hún teig klukkan 11:20 að staðartíma. Valdís er í 13. sæti og er fjórum höggum á eftir efstu kylfingum. Hjá henni gæti því verið spennandi mót framundan.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili skilaði inn frábæru skori á öðrum keppnisdegi á LET Access mótaröðinni sem er sú næststerkasta í Evrópu. Eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á 75 höggum lék Guðrún í gær á 67 höggum sem er fimm höggum undir pari vallarins í Sviss. Er hún í 11. sæti á tveimur undir pari og fór örugglega í gegnum niðurskurðinn.

Berglind Björnsdóttir úr GR komst ekki í gegn en hún lék á 76 og 79 höggum. kris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert