Kristján Þór fór holu í höggi

Kristján Þór Einarsson.
Kristján Þór Einarsson. LjósmyndSigurður Elvar

Kristján Þór Einarsson úr GM fór holu í höggi í Origo-bikarnum um síðustu helgi en keppnin er hluti af Eimskipsmótaröðinni í golfi.

Kristján fór holu í höggi á áttundu holu vallarins sem er par 3. „Ég mældi 135 metra í stöngina. Vindurinn blés aðeins í bakið þannig að hann hjálpaði aðeins. Ég sló með 9 járni og höggið var mjög gott. Boltinn lenti metra inni á flötinni, tók eitt skopp í átt að holunni og síðan spinnaðist hann til baka ofan í holuna. Tilfinning var geggjuð. Ég hef tvívegis áður farið holu í höggi á ferlinum en aldrei séð boltann fara ofan í fyrr en nú," sagði Kristján um afrekið.

Hann endaði í öðru sæti í sínum riðli á mótinu en efstu kylfingar hvers riðils komust áfram í átta manna úrslit. Rúnar Arnórsson úr Keili Hafnarfirði sigraði í karlaflokki eftir 3/2 sigur gegn félaga sínum Birgi Magnússyni. Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur sigraði í kvennaflokki eftir 2/1 sigur gegn Helgu Kristínu Einarsdóttur úr Keili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert