Haraldur í fótspor van de Velde

Haraldur Franklín Magnús.
Haraldur Franklín Magnús. mbl.is/Ófeigur

Eins og fram hefur komið hér á mbl.is verður Haraldur Franklín Magnús, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, á meðal keppenda á Opna breska meistaramótinu í golfi, fyrstur íslenskra karla en mótið í ár fer fram 19. - 22. júlí. Að þessu sinni er mótið haldið á hinum einstaklega erfiða Carnoustie-velli sem geymir heldur betur ríka sögu. 

Carnoustie þykir einn allra erfiðasti völlur af þeim sem fá að halda Opna breska meistaramótið sem á ensku er iðulega kallað The Open. Mótið var fyrst haldið árið 1860 og í raun er einungis hægt að tala um Ólympíuleikana þegar finna þarf íþróttamót sem jafnast á við Opna breska meistaramótið í golfi í sögulegu samhengi. 

Ekki er nóg með að Haraldur Franklín Magnús muni feta í fótspor allra bestu kylfinga í sögunni hvort sem þar er um að ræða Old Tom Morris, Young Tom Morris, Bobby Jones, Ben Hogan, Jack Nicklaus eða Tiger Woods heldur einnig í fótspor Jean van de Velde. 

Árið 1999 var Opna breska haldið á Carnoustie og sigraði Skotinn Paul Lawrie eftir umspil. Íþróttaheimurinn mun hins vegar aldrei gleyma 72. og síðustu holunni hjá hinum þá lítt kunna Frakka, Jean van de Velde. Hann var með nokkuð góða forystu þegar hann kom á 18. teig á síðasta keppnisdeginum en margt fer öðruvísi en ætlað er í golfíþróttinni. Milljónir manna fylgdust agndofa með þegar Frakkinn lék lokaholuna en niðurstöðuna má sjá á meðfylgjandi myndskeiði.

Írinn Padraig Harrington á Hvaleyrinni árið 2002 ásamt hinum snjalla …
Írinn Padraig Harrington á Hvaleyrinni árið 2002 ásamt hinum snjalla kylfingi Ólafi Má Sigurðssyni. Þess má geta til gamans að Ólafur er stóri bróðir Gylfa Þórs Sigurðssonar sem tvívegis hefur hlotið sæmdarheitið Íþróttamaður ársins. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Síðasti sigurvegari á Carnoustie heimsótti Ísland

Opna breska meistaramótið skiptist á milli glæsilegra golfvalla í Skotlandi en einnig á Englandi. Gamli völlurinn í St. Andrews fær mótið á fimm ára fresti en aðrir þurfa að bíða ögn lengur. Carnoustie hélt mótið síðast árið 2007 og þá sigraði Írinn og Íslandsvinurinn Padraig Harrington sem heimsótti Ísland árið 2002 og keppti þá á Canon-mótinu á Hvaleyrinni í Hafnarfirði. Völlurinn þykir sérlega erfiður viðureignar og þá er karginn gjarnan þykkur. Fjölmargir frægir kylfingar hafa látið hafa eftir sér ummæli í þá veruna hversu erfitt sé að eiga við Carnoustie-völlinn. Þegar veðurguðirnir láta finna sér verður glíman við völlinn vitaskuld enn erfiðari. 

Upplifun Björns Arnars af ævintýralegum lokaandartökum á Opna breska 1999.
Upplifun Björns Arnars af ævintýralegum lokaandartökum á Opna breska 1999. Úr Morgunblaðinu

Endaspretturinn á Opna breska árið 1999 er mörgum í fersku minni enda dramatíkin með ólíkindum. Björn Arnar Ólafsson, starfsmaður Morgunblaðsins, rifjaði dramatíkina upp með sínu nefi í golfblaði sem fylgdi Morgunblaðinu í maí árið 2013. 

Aðrir sigurvegarar Opna breska meistaramótsins á Carnoustie-vellinum í Skotlandi eru Tom Watson 1975, Gary Player 1968, Ben Hogan 1953, Henry Cotton 1937 og Tommy Armour 1931. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert