„Go Iceland“

Haraldur Franklín á grjóthörðum Carnoustie á æfingahringnum í gær. Jude …
Haraldur Franklín á grjóthörðum Carnoustie á æfingahringnum í gær. Jude O'Reilly fylgist með. mbl.is/Páll Ketilsson

Ingi Rúnar Gíslason, yfirþjálfari hjá Golfklúbbi Reykjavíkur, segir að Haraldur Franklín Magnús muni láta skynsemina ráða för þegar hann keppir á Opna breska meistaramótinu, eða The Open Championship, á Carnoustie-vellinum í dag. Ingi segir þá staðreynd að Íslandi eigi fulltrúa á þessu sögufræga móti hafa vakið athygli hjá Skotum. 

Haraldur fer á teig klukkan 10:53 að staðartíma eða 9:53 að íslenskum tíma og verður fylgst með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is. 

Ingi sem er Haraldi til halds og trausts á mótinu segir að leikskipulagið gangi meðal annars út á að taka hinar hættulegu brautarglompur úr leik í teighöggunum. 

„Við leggjum upp með að halda okkur frá öllum brautarglompum ef við mögulega getum og verðum að treysta á stutta spilið og járnahöggin. Við erum ekki hingað komnir til að taka áhættu í leikskipulaginu. Eitt af því sem kylfusveinn Haraldar hefur kennt okkur er að miklu betra er að lenda í glompunum við flatirnar heldur en í glompunum á brautunum. Allt verður gert til að halda sig frá brautarglompunum af teig. Fyrst og síðast er stórkostlegt fyrir íslenskt golf að við séum komin með mann inn í þetta mót. Við höfum fengið mikla athygli hérna. Kallað til okkar úti á vellinum: „Go Iceland“ og við fáum spurningar um hvort þetta sé keppandinn frá Íslandi. Menn hafa tekið eftir því að Íslendingar eigi fulltrúa í mótinu. Aðalmálið er að Haraldur venjist þessari tilhugsun en hann veit að hann á heima hérna. Miðað við undirbúninginn sem við höfum farið í gegnum þá er það allt öðruvísi en það sem ég hef farið í gegnum með nokkrum leikmanni. Þökk sé þessum frábæra kylfusveini. Hann er gersamlega búinn að umturna öllu sem við þekkjum í sambandi við að nálgast golfmót,“ sagði Ingi Rúnar í samtali við mbl.is.

Þar á hann við Írann Jude O´Reilly sem verður kylfusveinn Haraldar á mótinu, meðal annars vegna kunningsskapar við Jussi Pitkänen, afreksstjóra GSÍ. Sá býr að yfirgripsmikilli reynslu og hefur farið á ótal risamót sem kylfusveinn til dæmis fyrir Henrik Stenson. „Jude hefur kennt okkur allt í sambandi við hvernig við eigum að nálgast mót af þessari stærðargráðu. Hann er mikill reynslubolti og hefur verið kylfusveinn hjá mörgum frábærum kylfingum. Hann var í fyrsta skipti kylfuberi á The Open árið 1991 og var þá í þriðja síðasta ráshópi á lokadeginum. Fyrir okkur hefur verið alger skóli fyrir okkur að vinna með honum og hann stjórnar miklu varðandi leiksskipulaginu.“

Ingi Rúnar Gíslason.
Ingi Rúnar Gíslason. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Carnoustie-völlurinn er grjótharður eftir gott veður í Skotlandi í sumar. Haraldur og hans aðstoðarmenn voru mættir á keppnisstaðinn á sunnudaginn og hafa því áttað sig á aðstæðum. Þeir brugðust við í ljósi þess hversu harður völlurinn er og skiptu um kylfur í samráði við framleiðandann Titleist. „Að koma snemma var mjög gott fyrir okkur því það var pínu sjokk að sjá hvernig aðstæðurnar eru. Maður er nánast hvergi í aðstæðum sem þessum nema á þessu móti. Völlurinn er grjótharður og við þurftum að taka öll fleygjárnin hjá Haraldi og breyta þeim. Titleist smíðaði þrjú ný fleygjárn fyrir hann og við höfum búið til samsetningu varðandi fleygjárnin sem við teljum virka. Í kringum flatirnar komst hann ekki nægilega undir boltann til að lyfta honum og kylfurnar köstuðust eiginlega af undirlaginu. Brautirnar eru eins og malbik og fólk áttar sig líklega ekki á þessu. Heima á Íslandi þá eru vellirnir stundum þurrir en iðulega er mjúkt undir en hér er hart undir. Ég hef aldrei séð jafnharðan völl og hér á Carnoustie. Sérstaklega í kringum flatirnar.  Titleist hannaði fleygjárnin þannig að hægt er að vippa með þeim af hörðu undirlagi en einnig slá vel með þeim úr flatarglompum,“ sagði Ingi en er ekki óheppilegt fyrir lítt reyndan kylfing að skipta um kylfur rétt áður en hann stígur á stóra sviðið?

„Nei alls ekki. Þessar breytingar voru ekki þess eðlis. Í raun eru þetta eins kylfur en botninn á kylfuhausunum er öðruvísi. Fremri parturinn á kylfunni kemst aðeins nær jörðinni. Titleist veit nákvæmlega hvað Haraldur þarf og er með þær upplýsingar enda er hann mældur reglulega. Þessar breytingar voru nánast eins og mismunandi grip á takkaskóm ef maður á að finna samanburð úr annarri íþrótt,“ sagði Ingi Rúnar Gíslason við mbl.is á Carnoustie. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert