Haraldur á sama skori og stórstjörnur

Haraldur Franklín Magnús slær á tíundu holunni á Carnoustie í …
Haraldur Franklín Magnús slær á tíundu holunni á Carnoustie í dag. AFP

Haraldur Franklín Magnús lék heilt yfir nokkuð vel á fyrsta hring sínum á The Open-mótinu á Carnoustie-vellinum á aust­ur­strönd Skot­lands í dag, en hann er fyrstur allra Íslendinga til að taka þátt í risamóti í karlaflokki. 

Haraldur lék á 72 höggum eða einu höggi yfir pari. Haraldur náði sér ekki almennilega á strik á fyrri níu holunum og lék þær á fjórum höggum yfir pari. Síðari níu holurnar gengu hins vegar mikið mun betur og fékk hann fugl strax á tíundu og tvo til viðbótar á 13. og 14. holu. 

Hann fékk tvo skolla á 15. og 16. holu en bætti upp fyrir það með að fá tvo fugla á síðustu tveimur holunum. Hann er í 68.-92. sæti, en staða hans breytist eitthvað enda ekki allir kylfingar búnir að spila fyrsta hringinn. 

Haraldur er á sama skori og stjörnur á borð við Justin Rose, Jordan Spieth, Lee Westwood, Henrik Stenseon, Dustin Johnson, Bubba Watson og Sergio Garcia. Þegar fréttin er skrifuð er Tiger Woods nýkominn af stað og hann er á einu höggi undir pari eftir tvær holur. 

Kevin Kisner frá Bandaríkjunum er efstur á fimm höggum undir pari. 

Kristján Jónsson íþróttafréttamaður mbl.is og Morgunblaðsins gekk hringinn með Haraldi í dag og lýsing frá holu til holu er hér fyrir neðan:

Haraldur á The Open - 1. dagur opna loka
kl. 14:51 Textalýsing 18 - FUGL Flott teighögg á miðja braut og innáhöggið er öruggt. Hann skellir svo niður pútti af níu metrum. Frábær endir á hringnum. Staðan +1, 68.-92. sæti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert