Öldungurinn skákaði þeim bestu

Bernhard Langer eftir vel heppnað teighögg á Carnoustie í morgun.
Bernhard Langer eftir vel heppnað teighögg á Carnoustie í morgun. AFP

Þrír af fimm efstu kylfingunum á heimslistanum í golfi eru úr leik á Opna breska meist­ara­mót­inu, The Open Champ­i­ons­hip, sem fram fer á Carnoustie-vellinum í Skotlandi um þessa helgi.

Bernhard Langer er aftur á móti enn í fullu fjöri. Sextugi Þjóðverjinn lauk öðrum hring í gær á tveimur höggum yfir pari samanlagt og náði því í gegnum niðurskurðinn, ólíkt þeim Dustin Johnson og Justin Thomas sem sitja í efstu tveimur sætum heimslistans. Spánverjinn John Rahm er einnig úr leik en sá er í fimmta sæti listans.

Langer vann sér inn þátttöku á Opna meistaramótinu með því að vinna meistaramót öldunga á síðasta ári. Hann hefur tvisvar sinnum unnið risamót á ferlinum, The Masters í bæði skiptin, árin 1985 og 1993.

„Ég tók þátt á Masters-mótinu í ár og náði í gegnum niðurskurð. Og aftur hér á meistaramótinu, ég held að það sé ágætisafrek,“ sagði Langer sem er lék fyrsta hringinn á tveimur höggum yfir pari en annan hringinn í gær á pari.

Þriðji hringur mótsins hófst í morgun og Langer segist ekki vera hættur. „Það eru margir frábærir kylfingar hérna og ég hef gert betur en margir af þeim bestu sem eru yngri en ég. Svona mót eru ekki auðveld og það sést þegar margir af bestu kylfingum heims detta snemma úr leik.“

Hann er búinn að spila fyrri níu holurnar á þriðja hring og er sem stendur á einu höggi undir pari og því samanlagt einu höggi undir í 46.-60. sæti keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert