Sá gamli hafði betur gegn Íslendingnum

Haraldur í þungum þönkum ásamt kylfusveini sínum á 6. braut …
Haraldur í þungum þönkum ásamt kylfusveini sínum á 6. braut í gær. Ljósmynd/Páll Ketilsson

Haraldur Franklín Magnús, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, fékk að kynnast því í gær hversu erfið glíman getur verið við hinn 176 ára gamla völl Carnoustie á austurströnd Skotlands. Haraldur er úr leik eftir 36 holur á Opna breska meistaramótinu, The Open Championship, og verður ekki á meðal þeirra áttatíu sem fá að halda leik áfram í dag og á morgun. Sá gamli hafði betur í þetta skiptið. Þótt Skotarnir séu vinalegir er völlurinn allt annað en vinalegur. Ekki síst í þeim búningi sem hann er þegar The Open fer fram.

Haraldur komst óvænt inn í mótið með því að leika virkilega vel í úrtökumóti fyrir The Open og varð þar með fyrsti íslenski karlinn til að leika á einu risamótanna í golfi. Var það afar stór áfangi fyrir íþróttina á Íslandi og gott framhald af því þegar Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir léku á risamótum í fyrra fyrstar íslenskra kvenna. Því er ekki að neita að tignarlegt var að sjá íslenska fánann blakta fyrir ofan áhorfendastúkuna við 18. flötina á þessu sögufræga móti. Fyrir Harald og þá sem að þessu verkefni komu fyrir hönd GR og GSÍ er ljóst að þátttakan skilur eftir sig mikla reynslu sem vinna þarf með.

Haraldur er keppnismaður og það sést úr flugvél þegar hann keppir í golfi. Hann var í erfiðri stöðu eftir níu holur báða keppnisdagana en hætti aldrei að berjast. Skilaði það honum fínni útkomu á fyrsta hringnum en mistökin í gær voru of mörg til þess að hann kæmist áfram. 

Haraldur var vonsvikinn þegar Morgunblaðið tók hann tali strax að hringnum loknum í gær og hafði ætlað sér að nýta tækifærið á stóra sviðinu og komast áfram.

„Ég ætlaði mér stóra hluti hérna. Ég hafði lofað sjálfum mér því að þegar ég fengi loksins stórt tækifæri myndi ég nýta mér það. Þetta er kannski fyrsta alvöru tækifærið sem ég fæ sem atvinnumaður og ég er því svolítið vonsvikinn.“

Sjá umfjöllun Kristjáns Jónssonar um Harald Franklín og The Open í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert