Axel og Birgir í undanúrslit á EM

Axel Bóasson og Birgir Leifur Hafþórsson glaðbeittir á Gleneagles-vellinum eftir ...
Axel Bóasson og Birgir Leifur Hafþórsson glaðbeittir á Gleneagles-vellinum eftir leik dagsins. Ljósmynd/Thomas Bojanowski

Axel Bóasson og Birgir Leifur Hafþórsson náðu þeim frábæra árangri í dag að komast í undanúrslit á Evrópumótinu í liðakeppni atvinnukylfinga á Gleneagles-vellinum í Skotlandi.

Axel og Birgir tryggðu sér sigur í sínum riðli með því að vinna lið frá Noregi í dag þar sem úrslitin réðust á lokaholunni. Höfðu þeir félagar eina holu í forskot en unnu einnig 18. holuna og þar með einvígið 2/0.

Axel og Birgir unnu þar með allar þrjár viðureignir sínar í riðlakeppninni og komust í undanúrslit mótsins. Keppt var í fjórbolta í riðlakeppninni en í undanúrslitunum á sunnudag verður keppt í fjórmenningi, þar sem kylfingar leika til skiptis sama boltanum.

Fyrr í dag gerðu Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir jafntefli í lokaleik sínum í riðlakeppninni í kvennaflokki, við austurrískt lið. Þær enduðu í 3. sæti síns riðils eftir að hafa gert tvö jafntefli og tapað einum leik.

Á morgun fer svo fram keppni blandaðra liða, þar sem karlar og konur leika saman 18 holur í fjórmenningi. Birgir Leifur og Valdís Þóra leika saman, og Axel og Ólafía. Samanlögð frammistaða paranna mun svo telja í keppni við hin liðin.

mbl.is