„Höfum spilað í verra veðri“

Frá leik liðanna í Grindavík í kvöld.
Frá leik liðanna í Grindavík í kvöld. Ljósmynd/Víkurfréttir

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, var nokkuð ánægð með spilamennsku liðsins í Grindavík í kvöld þegar Stjarnan lagði Grindavík að velli 2:1 í Pepsí-deild kvenna. 

Hvasst var þegar leikurinn fór fram og í síðari hálfleik bættist rigningin við. Var því krefjandi fyrir leikmenn liðanna að hafa vald á boltanum en tókst það býsna vel. „Aðstæður voru allt í lagi í fyrri hálfleik en í þeim síðari var þetta erfiðara. Þá rigndi og bætti aðeins í vindinn en við höfum svo sem spilað í verra veðri en þessu. Maður lætur sig hafa það. Aðalatriðið er að reyna að halda boltanum niðri í fáum snertingum. Í svona veðri er ekki annað hægt því maður veit aldrei hvað gerist þegar boltinn fer upp í loftið. Mér fannst okkur takast ágætlega upp í fyrri hálfleik en vorum ekki nógu góðar í seinni hálfleik á heildina litið,“ sagði Ásgerður en á stuttum kafla í upphafi síðari hálfleiks skoruðu þó Garðbæingar mörkin tvö og lögðu grunninn að sigrinum. 

„Það var mjög mikilvægt að skora eftir örfáar mínútur í síðari hálfleik. Grindavík er þannig lið að það er virkilega þétt í vörninni og með góðan markmann. Þar af leiðandi er erfitt að brjóta Grindvíkinga niður og mjög gott að byrja seinni hálfleikinn á því að skora,“ sagði Ásgerður en Stjarnan náði að kvitta fyrir úrslitin í fyrri leik liðanna þegar Grindavík vann óvænt í Garðabænum. „Já við erum aldrei sáttar við að tapa á heimavelli hvort sem það er á móti Grindavík eða öðru liði. Við hugsuðum um okkar leik og það var fínt að ná þremur stigum.“

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is