Tiger Woods náði sér á strik

Tiger Woods
Tiger Woods AFP

Tiger Woods lék á 66 höggum eða fimm undir pari á öðrum hringnum á Dell-mótinu sem er annað mótið af fjórum í FedEx-úrslitakeppni PGA-mótaraðarinnar bandarísku. 

Woods er á samtals fjórum undir pari eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á 71 höggi. Er hann sjö höggum á eftir efsta manni þegar mótið er hálfnað. Dell-mótinu lýkur á mánudag en gjarnan lýkur mótunum á stóru mótaröðunum á sunnudögum. 

Ýmislegt er í húfi fyrir Tiger eins og marga aðra um þessar mundir. Lokamótið í úrslitakeppninni, Tour Championship, rúmar einungis um 50 kylfinga og Tiger er ekki öruggur með sæti þar. Auk þess er hann á barmi þess að spila sig inn í Ryder-lið Bandaríkjanna og frammistaðan þessa dagana gæti verið nægilega góð til að hljóta náð fyrir augum liðsstjórans Jims Furyks. 

Bandaríkjamaðurinn Webb Simpson er efstur á 11 höggum og er til alls líklegur en Simpson sigraði á Players Championship á Sawgrass í vor. 

Næst á eftir koma þrír Englendingar. Tyrrell Hatton og Justin Rose á tíu undir pari og Tommy Fleetwood á 8 undir pari. 

Ýmsir frægir kappar hafa spilað nokkuð vel og gætu gert áhlaup á þriðja hringnum á morgun. Jordan Spieth er -6, Dustin Johnson á -5 og Rory McIlroy á -4 eins og Tiger og sama má segja um Brooks Koepka.  

Ólympíumeistarinn Justin Rose hefur leikið afar vel á fyrstu 36 …
Ólympíumeistarinn Justin Rose hefur leikið afar vel á fyrstu 36 holunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert