Þessir eru öruggir í lið Evrópu

Rory McIlroy
Rory McIlroy AFP

Nú liggur fyrir hvaða átta kylfingar unnu sig inn í lið Evrópu sem mætir Bandaríkjunum í Ryder-bikarnum í golfi. Fjórir til viðbótar verða valdir af liðsstjóra Evrópuliðsins Dananum Thomasi Björn. 

Fjórir unnu sig inn í liðið í gegnum stöðu sína á heimslistanum og það eru Spánverjinn Jon Rahm, Norður-Írinn Rory McIlroy, Svíinn Alex Noren og Daninn Thorbjørn Olesen.

Aðrir fjórir komast í liðið út á árangur sinn á Evrópumótaröðinni og eru það Ítalinn Francesco Molinari, Englendingarnir Justin Rose, Tommy Fleetwood og Tyrrell Hatton.

Snjallir og farsælir kylfingar þurfa því að treysta á að vera valdir af Björn. Þar má nefna reynda kylfinga sem sigrað hafa á risamótum eins og Sergio Garcia og Henrik Stenson.

Þá hafa Englendingarnir Paul Casey og Ian Poulter leikið nokkuð vel á árinu en báðir hafa þeir reynslu úr keppninni. 

Þá hefur Spánverjinn Rafael Cabrero Bello vakið talsverða athygli frá því síðasta keppni fór fram. 

Björn mun kynna val sitt næstkomandi miðvikudag en keppnin fer fram í lok september. Að loknu Dell-mótinu á PGA-mótaröðinni annað kvöld kemur í ljós hvaða átta eru öruggir í bandaríska liðið. 

mbl.is