Tiger Woods fór hamförum

Tiger Woods lék með Jordan Spieth í dag.
Tiger Woods lék með Jordan Spieth í dag. AFP

Enn glittir í gamla takta hjá gömlu kempunni Tiger Woods, sem átti stórkostlegan hring á BMW Championship í Pennsylvaniuríki í dag og tók forystuna í mótinu. 

Tiger Woods lék á 62 höggum sem er átta höggum undir pari vallarins í Newtown Square. Tók hann forystuna í mótinu en í kvöld jafnaði Rory McIlroy hann þegar N-Írinn skilaði inn sama skori.

Eru þeir höggi á undan Xander Chauffele en mótið hófst í dag og lýkur á sunnudag. Fleiri snjallir kylfingar léku vel og má nefna Justin Thomas sem er á sex undir pari. Þá var Rickie Fowler á fimm undir pari en hann tók sér hvíld síðustu vikurnar vegna meiðsla. 

Tiger fékk einn örn og sjö fugla á hringnum en einn skolla og níu pör. Var hann undir 30 höggum á fyrri 9 holunum. Þegar kappinn var upp á sitt besta átti hann það til að vera varkár á fyrsta hring í mótum. 62 er hans næstbesta skor á fyrsta hring á PGA-mótaröðinni. 

Hefur Tiger spilað býsna vel síðan á The Open Championship í júlí og hafa ýmsir golfspekingar spáð því að styttast sé farið í sigur hjá hinum 42 ára gamla Tiger Woods. 

Skorið kemur á góðum tíma fyrir Tiger en BMW-mótið er það næstsíðasta í FedEx-úrslitakeppni PGA-mótaraðarinnar. Um sjötíu efstu kylfingarnir á mótaröðinni eru eftir í úrslitakeppninni en einungis þeir þrjátíu efstu fá að leika á lokamótinu í næstu viku: Tour Championship. 

Bryson DeChambeau hefur unnið fyrstu tvö mótin í úrslitakeppninni en hann var á 67 höggum í dag. 

Bryson DeChambeau á hringnum í dag.
Bryson DeChambeau á hringnum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert