Spieth sættir sig við refsingu

Jordan Spieth hefur átt erfitt uppdráttar á þessu ári.
Jordan Spieth hefur átt erfitt uppdráttar á þessu ári. AFP

Bandaríski kylfingurinn Jordan Spieth, sem var í 2. sæti á heimslista í byrjun árs, á væntanlega yfir höfði sér refsingu frá PGA-mótaröðinni eftir að honum mistókst að komast í lokamót mótaraðarinnar.

Á lokamótinu sem fram fer í Atlanta 20.-23. september leika aðeins 30 efstu kylfingar stigalista FedEx-bikarsins. Spieth var í hópi 30 efstu fyrir BMW-meistaramótið um helgina en féll niður í 31. sæti stigalistans eftir að hafa lent í 54. sæti á mótinu.

Þetta þýðir að Spieth mun ekki ná að leika á að minnsta kosti 25 mótum á PGA-mótaröðinni keppnistímabilið 2017-2018, eins og reglur gera ráð fyrir. Hann verður því væntanlega sektaður.

„Ég ræddi við forráðamenn mótaraðarinnar fyrir nokkru en hugsaði í raun lítið um þetta, heldur beið þess sem verða vildi. Ég mun augljóslega samþykkja hana, hver sem sektin verður, og halda áfram og reyna að bæta við móti á hverju tímabili en það er svolítið erfitt,“ sagði Spieth.

Spieth hefur síðustu fimm ár ekki endað neðar en í 15. sæti á stigalista FedEx-bikarsins og hann vann bikarinn árið 2015.

Bryson DeChambeau er efstur á stigalista FedEx-bikarsins fyrir lokamótið og Justin Rose í 2. sæti, eftir að hafa orðið í 2. sæti BMW-meistaramótsins. Sigurinn á því móti kom Keegan Bradley úr 46. sæti í 6. sæti. Tiger Woods komst upp um fimm sæti, í 20. sæti, með því að enda í 6. sæti á BMW.

mbl.is