Ólafía vill verða Federer golfsins

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur ritað nýja kafla í golfsögu Íslands ...
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur ritað nýja kafla í golfsögu Íslands á síðust árum. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenskt golf er til umfjöllunar í grein CNN í dag þar sem Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er að sjálfsögðu í forgrunni.

Ólafía lék í fyrra fyrst íslenskra kylfinga á sterkustu mótaröð í heimi, LPGA-mótaröðinni, og náði góðum árangri. Best náði hún 4. sæti á Indy Women in Tech-mótinu. Þó að ekki hafi gengið eins vel hjá henni í ár þá hafa stór skref verið tekin í íslensku golfi, til að mynda þegar Haraldur Franklín Magnús varð fyrstur íslenskra karla til að keppa á Opna breska meistaramótinu, og þegar Ólafía, Valdís Þóra Jónsdóttir, Axel Bóasson og Birgir Leifur Hafþórsson urðu Evrópumeistarar í liðakeppni í sumar. Valdís leikur á Evrópumótaröðinni og náði til að mynda 3. sæti á Australian Ladies Classic í Bonville snemma árs.

Á ýmsu er tekið í greininni og þar kemur fram í máli Hauks Arnar Birgissonar, forseta GSÍ, að á Íslandi séu um 17.000 skráðir meðlimir í golfklúbbum og að um 40.000 Íslendingar, meira en 10% þjóðarinnar, spili golf að minnsta kosti 5-6 sinnum á sumri.

Farið er yfir feril Ólafíu og hraðan uppgang hennar frá því að hún fékk íþróttastyrk til háskólanáms í Wake Forest í Norður-Karólínu en þaðan útskrifaðist hún árið 2014. Hún komst inn á Evrópumótaröðina í fyrstu tilraun og sömuleiðis inn á LPGA-mótaröðina í fyrstu tilraun. Ólafía á góða möguleika á að komast á Ólympíuleikana í Tókíó 2020 og þangað stefnir hún. CNN spyr svo hvar hún sjái sig eftir fimm ár:

„Ég er vonandi á réttri leið til að verða Roger Federer kvennagolfsins,“ svarar Ólafía og vísar til Svisslendingsins sem unnið hefur 20 risamót í tennis, fleiri en nokkur annar tenniskarl.

Greinina í heild má sjá hér.

mbl.is