Birgir Leifur aftur af stað í Evrópumótaröðinni

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Ljósmynd/Styrmir Kári

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson verður á meðal keppenda á Portugal Masters-mótinu í golfi sem hefst á fimmtudaginn en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni. Þetta kemur fram á golf.is.

Birgir dró sig úr keppni í byrjun mánaðarins á móti í Evrópumótaröðinni í Danmörku vegna meiðsla í hálsi en hann hefur nú jafnað sig af þeim. Hann tók þátt í opnu móti á sínum gamla heimavelli á Akranesi á laugardag og lék á 69 höggum af gulum teigum. 

Birgir Leifur hefur leikið á níu mótum í Evrópumótaröðinni á þessu tímabili. Þar að auki hefur hann leikið á níu mótum í Áskorendamótaröð Evrópu, sem er næststerkasta atvinnumótaröðin í Evrópu.

Meðal keppenda á mótinu má nefna Spánverjann Sergio Garcia, Írann Padraig Harrington, Eddie Pepperell og Danann Thorbjörn Olesen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert