Tiger og Rose efstir á lokamótinu

Tiger Woods á hringnum í kvöld.
Tiger Woods á hringnum í kvöld. AFP

Tiger Woods og Íslandsvinurinn Justin Rose eru efstir þegar lokamótið á PGA-mótaröðinni, Tour Championship, er hálfnað í Atlanta. Hafa þeir spilað fyrri 36 holurnar á 7 höggum undir pari. 

Tiger Woods fær gríðarlegan stuðning frá áhorfendum og fékk fugl á lokaholunni við mikil fagnaðarlæti. Hann og Rose verða í síðasta ráshópi á morgun en Rose er nú efsti kylfingur heimlistans. Tiger var á 68 höggum og Rose á 67 höggum.

Næstur kemur Rory McIlroy á samtals 5 höggum undir pari. Margir sterkir kylfingar eru á 2-4 höggum undir pari og spennan er því mikil. 

Einungis þrjátíu kylfingar fá að leika í lokamótinu og hefur þeim fækkað smám saman síðustu vikurnar í FedEx úrslitakeppninni sem saman stendur af fjórum mótum. 

Kylfingarnir hafa fengið nokkuð marga fugla á East Lake vellinum en völlurinn refsar reglulega inn á milli og engum hefur tekist að stinga af. Talsverðar sveiflur hafa verið á hringjunum hjá mörgum kylfingum sem hafa klifrað upp í efstu sætin og fallið niður aftur. Rickie Fowler var í mjög góðum málum um tíma í dag en er samtals á 3 undir pari. 

Tveir af bestu kylfingum þessa árs, Bryson DeChambeau og Brooks Koepka, eru í tveimur neðstu sætunum í mótinu á 6 og 7 yfir pari. 

Justin Rose slær upp úr sandgryfju á hringnum í kvöld.
Justin Rose slær upp úr sandgryfju á hringnum í kvöld. AFP
mbl.is