Besti hringur Ólafíu til þessa

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir mbl.is/Árni Sæberg

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék sinn besta hring til þessa á loka­úr­töku­móti fyr­ir LPGA-mótaröðina, en þriðji hringurinn var leikinn í dag. Leika átti hringinn í gær, en vegna veðurs var því frestað. Ólafía lék hringinn á 72 höggum eða á parinu. 

Ólafía fór illa af stað á mótinu og lék fyrstu tvo hringina á samanlagt níu höggum yfir pari og var staða hennar því slæm fyrir hringinn í dag. Hún fékk þrjá fugla, einn skolla og einn tvöfaldan skolla á þriðja hringnum, en hún lék síðari níu holurnar á þremur höggum undir pari í dag. 

Hún er sem stendur í 78. sæti ásamt nokkrum öðrum kylfingum, 20 höggum á eftir Klöru Spilkova frá Tékklandi sem er í efsta sæti. 45 efstu kylfingarnir fá þátttökurétt á mótaröðinni og verður Ólafía því að leika betur á þeim fimm hringjum sem eftir eru til að eiga möguleika á því. 

Ólafía er sem stendur fjórum höggum frá efstu 45 kylfingunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert