Flottur hringur Haralds – frost hjá Birgi

Haraldur Franklín Magnús.
Haraldur Franklín Magnús. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Haraldur Franklín Magnús átti mjög góðan hring í dag á öðru stigi úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröðina í golfi en hann leikur á Desert Springs-vellinum í Almería á Spáni og þar er annar hringurinn spilaður í dag.

Haraldur lék hringinn á 69 höggum og eftir að hafa leikið á 72 höggum í gær er hann samtals á þremur höggum undir pari þegar keppnin er hálfnuð. Um það bil 20 efstu komast áfram á lokastig úrtökumótanna en Haraldur er sem stendur í 31. sætinu af 73 keppendum.

Birgir Leifur Hafþórsson er á sama stigi á El Encín-vellinum í Madríd þar sem hann lék frábærlega í gær, á 66 höggum. Birgir deilir 11. sætinu sem stendur en tafir hafa orðið á öðrum hringnum í Madríd í dag vegna frosts þar uppi á hálendinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert