Fundið þetta í fjóra mánuði

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

„Ég er búin að finna það í fjóra mánuði að það er eitthvað ekki alveg rétt hjá mér,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur og íþróttamaður ársins 2017, við Morgunblaðið.

Ólafía er komin heim til Íslands eftir annasamt ár á LPGA-mótaröðinni – ár þar sem segja má að hún hafi lent á vegg eftir stanslausan uppgang síðustu ár þar á undan og skrásetningu nýrra kafla í íslenskri íþróttasögu.

Þó að oft hafi lítið vantað upp á að betur færi er niðurstaða ársins sú að Ólafía fékk peningaverðlaun á 6 mótum af 21 sem hún lék á á LPGA-mótaröðinni. Hún náði best 26. sæti, á fyrsta móti ársins, og safnaði alls 37.207 Bandaríkjadölum yfir tímabilið. Til samanburðar þá vann hún sér inn sexfalt hærri upphæð í fyrra, á nýliðaári sínu á LPGA-mótaröðinni, fékk sæti í úrvalsliði Evrópu á Drottningamótinu og tók þátt í lokamóti LPGA-mótaraðarinnar, auk þess að tryggja sér þátttökurétt á risamótunum fimm.

Ólafía endaði í 138. sæti peningalista LPGA-mótaraðinnar í ár og var því langt frá því að vinna sér inn sæti á mótaröðinni á næsta keppnistímabili. Hún reyndi við lokastig úrtökumótsins, þar sem leiknir eru átta hringir, en fann fljótt það sem hún hafði fundið mánuðina á undan. Að eitthvað vantaði – eitthvað sem Ólafía vonar og trúir að hvíld frá golfi næstu vikur muni gefa henni aftur.

Alltaf þreytt og hef átt erfitt með að einbeita mér

„Ég var allt í lagi fyrstu dagana á þessu móti en ég fann samt að þetta var ekki gaman. Þegar mér finnst gaman úti á golfvelli þá spila ég mikið betur. Ég fór því að hugsa hvað væri eiginlega í gangi hjá mér, og reyndi allt til að finna einhverja hvatningu. Ég horfði til dæmis á bíómyndina Coach Carter og talaði við íþróttasálfræðinginn minn, en ég var bara komin svo langt niður í einhverju „burnout“. Ég er búin að finna það í fjóra mánuði að það er eitthvað ekki alveg rétt hjá mér. Ég fór til dæmis í blóðprufu því mér fannst ég bara alltaf vera þreytt. Ég hef átt erfitt með að einbeita mér og fundið alls konar einkenni sem ég finn ekki fyrir venjulega. Þetta hefur verið erfitt,“ segir Ólafía.

„Það hjálpaði ekki við að minnka álagið að vera alltaf að missa af niðurskurði með einu höggi. Ég hélt alveg áfram að vera jákvæð en þetta reyndi mikið á, og það fór orka í að láta svekkelsið ekki hafa áhrif á sig á næsta móti. Mér fannst ég alltaf vera að spila geðveikt vel en rétt missa af niðurskurðinum – að þetta væri alveg að smella, en það gerði það bara ekki. Í stað þess að taka mér pásu þá æfði ég bara meira í staðinn, reyndi að vinna í þessu og hinu, en það var bara ekki málið,“ segir Ólafía.

Sjá allt viðtalið við Ólafíu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert